Vinnufundir hjá FL Smidth

30.10.2007

Á fimmtudag og föstudag í seinustu viku voru haldnir vinnufundir hjá FL Smidth þar sem aðalfundarefnin voru endurnýjun tölvukerfis fyrir framleiðsludeild Sementsverksmiðjunnar og endurnýjun eða endurbygging rafsíu við gjallbrennsluofn.


Endurnýjun tölvukerfis var rædd hjá FL Smidth Automation, en það er dótturfélag í eigu FL Smidth, sem sérhæfir sig í tölvukerfum og stýringum fyrir sementsverksmiðjur. Á fundinum var farið yfir þarfir Sementsverksmiðjunnar við endurnýjun búnaðarins. Þótt aðaltilgangur fjárfestingarinnar sé hrein endurnýjun á búnaði og þar með aukið framleiðsluöryggi Sementsverksmiðjunnar verður einnig lögð áhersla á að auka aðgengi stjórnstöðvarmanna að kerfinu sem og að bæta vinnuaðstöðu þeirra. Til að mynda er gert ráð fyrir uppsetningu á breiðskjá þar sem upplýsingar um rekstur verksmiðjunnar koma glögglega fram ásamt svokölluðum trend – kúrfum, en þær segja til um gang rekstrarins yfir lengri tíma. Ennfremur er gert ráð fyrir því að stjórnstöðvarmenn geti fylgst með rekstrinum í þeim tilfellum sem þeir þurfa að yfirgefa stjórnstöð, en það er gert með svokölluðum handskjá sem er lítið og meðfærilegt tæki sem auðvelt er bera á sér.


Endurnýjun eða endurbygging á rafsíu var rædd hjá FL Smidth Airtech, en það er dótturfélag í eigu FL Smidth, sem sérhæfir sig í búnaði fyrir sementsverksmiðjur er tengist umhverfismálum. Bæði voru ræddir möguleikar þess að endurbyggja núverandi rafsíu við ofn svo og að byggja alfarið nýja rafsíu. Endurnýjun rafsíunnar við gjallbrennsluofn hefur tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi verður innan ekki langs tíma gerð krafa um frekari minnkun rykmagns í útblæstri frá Sementsverksmiðjunni, og þurfa þá að liggja fyrir lausnir til að bregðast við þeim kröfum. Hinn tilgangurinn er að undirbúa framleiðsluaukningu verksmiðjunnar, en eftir endurnýjun rafsíunnar þarf litla fjárfestingu til að auka afköstin.


Fundina sátu fyrir hönd Sementsverksmiðjunnar Kristján Guðmundsson iðnfræðingur og Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri. Þátttakendur frá FL Smidth voru þeir Frank Lund sölustjóri, Flemming R. Hansen yfirverkfræðingur, Helgi Henriksen sérfræðingur í ofnrekstri ásamt fjölda annara sérfræðinga sem til voru kallaðir eftir þörfum.


Myndin er tekin í lok fundarhalda, á henni eru Frank Lund frá FL Smidth og Kristján Guðmundsson og Gunnar H. Sigurðsson frá Sementsverksmiðjunni

GHS
30.10.2007

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar