Endurnýting filterryks

02.10.2007

Stjórn Sementsverksmiðjunnar hefur samþykkt að fjárfest verði í búnaði til endurnýtingar á filterryki frá gjallbrennsluofni verksmiðjunnar. Smíðuð verða setker með tilheyrandi dælubúnaði og hljóðar kostnaðaráætlun upp á um 20 milljónir króna.

Á undanförnum mánuðum hafa farið fram tilraunir með endurvinnslu ryksins. Filterrykið er blandað miklu magni af vatni eftir að það kemur frá rafsíu við ofn. Vatnið með filterrykinu í er látið í sérútbúna þró þar sem fastar efnisagnir botnfalla niður í efnissnigil. Sölt leysast upp í vatninu og eru fjarlægð með yfirfallsvatni til sjávar. Efnið sem botnfellur reynist úrvals hráefni til gjallframleiðslu. Það er losað úr þrónni með efnissnigli og inniheldur þá um 50% vatn. Þessum hráefnisgraut er síðan dælt með öflugum monódælum til ofninntaks til brennslu.

Verkefnið er mjög áhugavert bæði vegna þess að það er fjárhagslega hagkvæmt og að samfara því minnkar úrgangur frá fyrirtækinu verulega. Með endurnýtingu ryksins næst mun betri nýting á hráefnum en tilraunakeyrsla hefur sýnt að um það bil helming þess ryks sem hingað til hefur tapast má endurvinna með einu keri. Nýr búnaður sem ákveðið hefur verið að hefja smíði á samanstendur af tveim kerjum og má því búast við að árangur verði enn betri.

Útvatnað filterryk frá verksmiðjunni hefur á undanförnum árum verið notað til þess að ganga frá gamalli líparitnámu inni í Hvalfirði. Einnig hefur efnið verið notað í ýmis verkefni á Akranesi, svo sem við gerð efnismana og sem fylliefni undir vegi og plön. Efnið hefur á undanförnum misserum valdið nágrönnum verksmiðjunnar óþægindum vegna óþrifnaðar, en með endurnýtingu ryksins minnkar magn þess sem til fellur á ári um ca 12.000 tonn. Verkefnið er því mjög jákvætt í umhverfislegu samhengi og er liður í þeirri viðleitni eigenda verksmiðjunnar að draga úr úrgangsefnum vegna rekstrarins og gera hana þar með umhverfisvænni.

Hönnum búnaðar er unnin af fyrirtækinu Iðntækni í nánu samstarfi við tæknideild Sementsverksmiðjunnar. Áætlanir gera ráð fyrir að nýr búnaður verði tekinn í gagnið í byrjun næsta árs.

Akranesi 01.10.07

Gunnar H. Sigurðsson

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar