Hugmyndir um að auka framleiðslu

11.01.2007

Verið er að kanna af fullri alvöru möguleika á því að auka framleiðslugetu Sementsverksmiðjunnar á Akranesi um allt að 50% til þess að mæta sívaxandi eftirspurn eftir sementi hérlendis. Undirbúningsvinna vegna þessa er langt komin og skipulögð í samvinnu við FL Smidth & Co A/S í Kaupmannahöfn, framleiðanda búnaðar verksmiðjunnar.


Stöðug aukning hefur verið í sölu sements á undanförnum árum í réttu hlutfalli við aukna þenslu í íslensku efnahagslífi. Sementsverksmiðjan á Akranesi er eini framleiðandi íslensks sements. Sala verksmiðjunnar á nýliðnu ári var um 140.000 tonn, sem er með því allra mesta í sögu hennar. Til samanburðar má nefna að sementssala hennar árið 2003 var 85.000 tonn.


Framleiðslugeta verksmiðjunnar á Akranesi er nú um 130.000 tonn af sementi á ári úr eigin gjalli. Hugmyndir eru uppi um að auka hana í 160.000 tonn á ári og allt upp í 200.000 tonn með því að nýta innflutt gjall.


Markmiðið nægt framboð

Markmið Sementsverksmiðjunnar á Akranesi með aukinni framleiðslugetu er að tryggja byggingariðnaðinum nægt framboð af sementi jafnframt því að draga úr verðhækkunum. Mikil eftirspurn eftir sementi víða í Evrópu hefur leitt til þess að verð hefur hækkað mikið að undanförnu. Þannig hefur verð á sementi t.d. hækkað um 25% í Danmörku á einu ári. Sú hækkun er tvöfalt meiri en hækkunin sem orðið hefur á íslensku sementi á sama tímabili. Víðar í Evrópu hefur verð hækkað vegna aukinnar eftirspurnar og á ákveðnum svæðum hefur þurft að grípa til tímabundinnar skömmtunar á sementi.


Sementsverksmiðjan á Akranesi var gangsett árið 1958. Ekki aðeins markaði hún skref í atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu, heldur var bygging verksmiðjunnar stórt stökk í iðnsögu Íslendinga. Markmiðið með byggingu hennar var upphaflega tvíþætt; að sjá innanlandsmarkaði fyrir gæðasementi á samkeppnishæfu verði og að renna fleiri stoðum undir einhæft atvinnulíf á Íslandi á þeim tíma.


Tækninýjungar og breyttar rekstraráherslur þeim samhliða gera það að verkum að ríflega 40 starfsmenn annast nú alla þætti sementsframleiðslu, -dreifingar og -sölu. Þegar þeir voru flestir á áttunda átatug síðustu aldar voru starfsmenn verksmiðjunnar hátt í tvö hundruð talsins.


Nýir eigendur, Íslenskt sement ehf., tóku við rekstri verksmiðjunnar seint á árinu 2003. Reksturinn hafði þá verið erfiður og tap var á honum um langt árabil. Samhliða áherslubreytingum í rekstri tókst með samstilltu átaki eigenda og starfsmanna að rétta hann við. Nokkur hagnaður varð af fyrirtækinu á árinu 2005 og áætlanir fyrir nýliðið ár gera ráð fyrir verulega bættri afkomu.


Framúrskarandi vara

Sérstaða sementsverksmiðjunnar í margbreytilegri flóru íslenskra iðnfyrirtækja hefur m.a. falist í því að hún notar að stærstum hluta íslenskt hráefni til framleiðslu sinnar. Íslenskt sement hefur reynst framúrskarandi við gerð mannvirkja víðs vegar um landið, m.a. við virkjanaframkvæmdir á hálendinu.


Miklar kröfur eru gerðar til gæða alls hráefnis sem notað er í steypumannvirki við virkjanir, enda þeim ætlað að þola mikið álag og standast tímans tönn. Því er það mikil viðurkenning fyrir íslenskt sement þegar það er tekið fram yfir erlenda framleiðslu eftir samanburðarrannsóknir á gæðum.


Allt frá upphafi hefur Sementsverksmiðjan á Akranesi lagt kapp á þjónustu við íslenskan byggingariðnað og aðra viðskiptavini. Áform um framleiðsluaukningu eru liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að bæta enn þjónustu við kaupendur íslensks sements.


Gunnar H. Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar