Fundur með bæjarstjóra Akraness

24.10.2006

Bæjarstjóri Akraness kom á fund framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar hf þriðjudaginn 24. október, en erindið var að kynna bréf frá íbúum í næsta nágrenni verksmiðjunnar, dagsett 9. okt. síðastliðinn, þar sem fram koma kvartanir vegna hávaða og sjónmengunar sem fylgir starfsemi verksmiðjunnar. Lögð var áhersla á mögulegar leiðir til úrbóta hvað þetta varðar.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu mála:


Titringsvandamál


Seinni hluta árs 2004 komu upp titringsvandamál í drifi sementskvarnar II. Titringurinn ágerðist mjög hratt og var brugðist við með þeim hætti að pantað var nýtt drifhjól. Mikill titringur barst frá drifinu meðan beðið var eftir varahlutnum en nýtt hjól var sett við í febrúar 2005. Með nýju hjóli minnkaði titringurinn mikið en jókst síðan aftur síðastliðinn vetur. Haft var samband við framleiðanda drifsins en ekki fannst ástæða fyrir vandamálinu. Síðastliðið vor komst á samband milli Sementsverksmiðjunnar og sérhæfðs fyrirtækis í Þýskalandi (Fuchs Lubritech). Þetta fyrirtæki er sérhæft í þungum drifum og sérfræðingur frá þeim framkvæmdi vandasama viðgerð á drifi kvarnarinnar í mars 2006 sem varð til þess að titringur frá kvörninni stór minnkaði.

Þar sem vel tókst til við þessa viðgerð var ákveðið að fá sérfræðing frá sama fyrirtæki til að framkvæma samskonar viðgerð á sementskvörn I, en það er eldri sementskvörnin sem notuð er þegar sementssala er það mikil að kvörn II hefur ekki undan eins og reyndar hefur verið undanfarna mánuði. Drif kvarnar I er það gróft að titringur berst frá því út í umhverfið. Til stóð að sérfræðingurinn kæmi til landsins í sumar en vegna mikillar sementssölu og hættu á sementsskorti hefur honum verið frestað, en hann mun koma til landsins um 20. nóvember næstkomandi. Eftir viðgerð á drifi kvarnar I er gert ráð fyrir að titringur frá verksmiðjunni verði viðunandi og valdi ekki ónæði gagnvart nágrönnum hennar.


Hávaðavandamál


Eins og fram kemur í bréfi íbúa til Bæjarráðs Akraness valda hvellir frá skotum sem notuð eru til þess að losa um efnisknasta sem setjast inn á ofninn ónæði. Efnisknastar þessir geta orðið það miklir að þeir dragi úr eðlilegu efnisstreymi í ofni með þeim afleiðingum að afköst minnka og jafnvel stöðvast alveg ef ekkert er að gert. Því miður eru ekki þekktar aðrar aðferðir sem duga til hreinsunar efnisknasta en hér um ræðir. Stjórnendur Sementsverksmiðjunnar eru meðvitaðir um það ónæði sem þessi starfsemi veldur en leggja áherslu á að ekki sé skotið í ofn seinni part kvölds og að næturlagi. Hefur þessari vinnureglu verið fylgt eftir en einstaka sinnum koma upp þær aðstæður í ofninum að nauðsynlegt er minnka knast að næturlagi. Ítrekað verður við starfsmenn verksmiðjunnar að betra sé að hreinsa knasta úr ofni seinni hluta dags í von um að minnka notkun byssunnar á kvöldin og á nóttunni eins og kostur er.


Sjónmengun


Þorvaldur Vestmann sviðstjóri Tækni- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar og undirritaður áttu ágætan fund um daginn varðandi möguleika á að draga úr neikvæðum áhrifum verksmiðjunnar gagnvart bænum. Einkum voru ræddir möguleikar á að reisa hljóðmanir með fallegum gróðri norðanvert við ofnhúsið. Þar sem töluverða sérþekkingu þarf til að meta áhrif slíkra mana með tilliti til hljóðvistar var ákveðið að leita aðstoðar í þeim efnum. Haft hefur verið samband við verkfræðistofuna Línuhönnun en þeir munu framkvæma mælingar og í framhaldi af því gera tillögu að lausnum séu þær fyrir hendi.

Starfsemi Sementsverksmiðjunnar er háð starfsleyfi frá Umhverfisstofnun en núverandi leyfi gildir til 01.08.2008. Í starfsleyfinu eru gerðar kröfur til verksmiðjunnar varðandi umhverfismál. Meðal annars er verksmiðjunni gert að reka umhverfisstjórnunarkerfi sem byggt er upp í anda ISO staðlanna. Verksmiðjunni er gert að halda grænt bókhald sem í raun heldur utan um að verksmiðjan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í starfsleyfinu. Verksmiðjunni hefur gengið vel að uppfylla kröfurnar og raunar fengið hól frá Umhverfisstofnun fyrir gott umhverfisstjórnunarkerfi.

Að lokum lagði framkvæmdastjóri á það áherslu að eigendur og stjórnendur verksmiðjunnar vilja eiga gott samstarf við bæjaryfirvöld á Akranesi og nágranna verksmiðjunnar. Sementsverksmiðjunni var á sínum tíma valinn staður að ósk heimamanna og hefur hún verið starfrækt á Akranesi allt frá árinu 1958. Samvinnan við Akurnesinga hefur verið með eindæmum góð þrátt fyrir viðkvæma staðsetningu verksmiðjunnar.

Rétt er að taka fram, að nágrannar verksmiðjunnar hafa í gegnum tíðina sýnt starfseminni skilning og langlundargeð en í því sambandi er einkum hafður í huga erfiður tími þegar beðið var eftir nýju drifhjóli veturinn 2004 til 2005. Verksmiðjurekstur er flókið ferli og þrátt fyrir viðleitni manna til að standa sig sem best geta ófyrirséðir atburðir valdið truflun í rekstri. Verksmiðjan vill vinna áfram í sátt við umhverfi sitt og tekur gjarnan við ábendingum um það sem betur má fara.

Bæjarstjóranum á Akranesi er þakkaður góður fundur.

Gunnar H. Sigurðsson,
framkvæmdastjóri

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar