Áform um aukna framleiðslu hjá Sementsverksmiðjunni

16.06.2006

Viðtal við Gunnar H Sigurðsson í Morgunblaðinu 1 júní 2006.
Eftir áralangan taprekstur hefur tekist að snúa rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi til betri vegar, en nokkur hagnaður varð af rekstrinum á síðasta ári. Gunnar Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir möguleika á sóknarfærum til að styrkja stöðuna enn frekar. Grétar Júníus Guðmundsson ræddi við hann.
Áform eru um að auka framleiðsluafköst Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, að sögn Gunnars Hermanns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann segir að þannig muni verksmiðjan geta sinnt markaðnum hér á landi enn betur en hingað til samhliða því að hún verði hagkvæmari rekstrareining.
"Tveir möguleikar eru til afkastaaukningar," segir Gunnar. "Annars vegar með breytingum á núverandi framleiðslubúnaði, en hins vegar með endurnýjun framleiðslutækja. Á stjórnarfundi sem haldinn var 24. maí síðastliðinn var ákveðið að kanna fyrst möguleikann á að breyta núverandi framleiðslubúnaði þannig að hægt verði að framleiða allt að 140 þúsund tonn af gjalli í verksmiðjunni, sem svarar til um 170 þúsund tonna sementsframleiðslu. Við þessar breytingar væri síðan hægt að fullnýta framleiðslugetuna með minniháttar innflutningi á gjalli þannig að 180 þúsund tonna framleiðsluafköst næðust, en slíkt magn nægir til að anna íslenska sementsmarkaðnum í góðu árferði. Sérfræðingur frá sementsvélaframleiðandanum FL Smidth í Kaupmannahöfn er væntanlegur til Akraness á næstu dögum, en hans hlutverk er að gera tillögur að breytingum til aukinna afkasta."
Hjá Sementsverksmiðjunni á Akranesi hafa verið framleidd um 130 þúsund tonn af sementi á ári og ársvelta fyrirtækisins er á annan milljarð króna. Fyrirtækið hóf framleiðslu sements árið 1958 og hefur frá þeim tíma framleitt, selt og dreift sementi fyrir íslenska markaðinn. Sementsverksmiðjan var frá upphafi í eigu íslenska ríkisins. Árið 1993 var verksmiðjunni breytt í hlutafélag og var nafni verksmiðjunnar þá breytt í Sementsverksmiðjan hf. Ríkið ákvað árið 2003 að selja fyrirtækið og var verksmiðjan seld fyrirtækinu Íslenskt sement ehf. í október það ár.
Viðsnúningur í rekstri
Gunnar segir að eftir áralangan taprekstur hafi tekist að snúa rekstri Sementsverksmiðjunnar til betri vegar á árinu 2004. Nokkur hagnaður hafi svo orðið á rekstrinum á síðasta rekstrarári og gert sé ráð fyrir verulega bættum rekstri fyrir þetta ár. Það gefi möguleika á sóknarfærum til að styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar.
"Markvisst hefur verið unnið að lækkun framleiðslukostnaðar og er nú svo komið að mun hagkvæmara er að framleiða sementsgjall í verksmiðjunni en að flytja efnið inn erlendis frá. Þessi árangur hefur meðan annars náðst með betrumbótum í tæknilegum rekstri og með lækkun orkukostnaðar og launakostnaðar.
Þá hefur einnig mikið að segja að sementssala verksmiðjunnar hefur verið mjög mikil að undanförnu. Á síðastliðnu ári nam salan 132 þúsund tonnum og áætlanir okkar gera ráð fyrir því að salan á þessu ári verði um 140 til 150 þúsund tonn."
Framleiðslugetan 130 þúsund tonn
Framleiðsla Sementsverksmiðjunnar samanstendur af framleiðslu sementsgjalls og mölun þess, en þannig veður útkoman sement. Framleiðslugeta verksmiðjunnar á sementsgjalli er við núverandi aðstæður um 110 þúsund tonn á ári en það nægir til framleiðslu á um 130 þúsund tonnum af sementi. Mölunarafköst verksmiðjunnar eru hinsvegar töluvert meiri, eða sem nemur um 180 þúsund tonnum af sementi. Við núverandi aðstæður nægir framleiðsla verksmiðjunnar úr eigin gjalli ekki til að anna markaðnum. Brugðist er við þessari vöntun með innflutningi á sementsgjalli frá Noregi, en þannig næst að framleiða upp í eftirspurn.
Þrjár tegundir af sementi
Hjá Sementsverksmiðjunni starfa nú um 42 starfsmenn. Framleitt er á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn um 330 daga ársins en stöðva verður framleiðsluna um þriggja til fjögurra vikna skeið á ári vegna viðhalds.
Framleiddar eru þrjár tegundir af sementi hjá verksmiðjunni, portlandsement, kraftsement og hraðsement. Sementstegundirnar hafa mismunandi eiginleika og segir Gunnar að kraftsement sé nú mest selt til almennra nota á Reykjavíkursvæðinu. Portlandsement sé gjarnan notað til stærri mannvirkja og þar sem krafist sé mikillar varnar gegn mögulegum neikvæðum efnahvörfum. Hraðsement sé hins vegar notað þar sem óskað er eftir hraðri hörðnun steypunnar.
Þýðingarmikið fyrir þjóðarbúið
"Rekstur Sementsverksmiðjunnar hefur verið þýðingarmikill fyrir íslenskt samfélag frá því fyrirtækið tók til starfa," segir Gunnar. "Framleidd eru mikil verðmæti, að langmestu leyti úr íslenskum hráefnum og með íslensku vinnuafli. Verksmiðjan hefur þannig í gegnum árin verið mikilvægur vinnuveitandi á Akranesi og rekstur hennar sparað þjóðarbúinu mikinn gjaldeyri sem annars hefði farið í innflutning á sementi.
Sement frá Sementsverksmiðjunni hefur reynst vel við íslenskar aðstæður, enda hefur þróun þess tekið mið af þeim erfiðu veðurfarslegu aðstæðum sem byggingar eru í.
Virkjanir sem byggðar hafa verið á Íslandi eru að langmestu leyti byggðar úr íslensku sementi frá Sementsverksmiðjunni. Þessi mannvirki, sem eru gerð til þess að þola mikið álag og standast tímans tönn, eru gott vitni þess hve steypa sem framleidd er úr íslensku sementi er góð vara.
Sement frá Sementsverksmiðjunni og eigendum hennar er að langmestu leyti notað við uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar. Umfangsmiklar rannsóknir fóru fram á mismunandi sementstegundum bæði frá erlendum aðilum og frá Sementsverksmiðjunni varðandi val á sementi til bergþéttinga undir aðalstíflu við Hálsalón og til gangagerðar frá lóninu að stöðvarhúsi. Um mikilvæga og vandasama verkþætti er að ræða og því mikilvægt að standa sem best að verki. Fór svo að sement frá Sementsverksmiðjunni þótti henta best og var valið til verksins. Sement frá norska sementsframleiðandanum Norcem, sem er reyndar einn af eigendum Sementsverksmiðjunnar, er notað í sjálfa aðalstífluna og í stöðvarhús enda um gríðarlegt sementsmagn að ræða."
Mikil gæði framleiðslunnar
Gunnar segir að innri styrkur Sementsverksmiðjunnar sé þríþættur, þ.e. mikil gæði þeirrar vöru sem verksmiðjan framleiðir, reynslumikið starfsfólk og hátt þjónustustig.
"Gæði þeirrar vöru sem framleidd er í Sementsverksmiðjunni eru mikil og uppfylla evrópska staðla um sement. Rekið er vottað gæðakerfi innan verksmiðjunnar sem heldur utanum allt framleiðslu-, sölu- og dreifingarferli starfseminnar og tryggir að viðskiptavinir fái þá vöru og þjónustu sem lofað er í gæðalýsingum. Auk þessa er sementið frá verksmiðjunni CE merkt, en það tryggir öryggi afurðarinnar og óheftan aðgang verksmiðjunnar að mörkuðum í Evrópu."
Hann segir að verksmiðjunni hafi haldist mjög vel á starfsfólki sem búi yfir mikilli reynslu, færni og þrautseigju.
Rekstur heillar sementsverksmiðju með öllu sem því fylgir sé flókið ferli og margt sem þurfi að taka tillit til. "Það að einungis rúmlega 40 starfsmenn sjái um þennan rekstur segir, að það er valinn starfsmaður í hverri stöðu.
Í þriðja lagi er hátt þjónustustig verksmiðjunnar við viðskiptavini sína mjög mikilvægt, en frá upphafi hefur það verið eitt aðalsmerki fyrirtækisins að veita góða þjónustu. Viðskiptavinir verksmiðjunnar geta treyst því að fá það sement sem þeir biðja um fljótt og vel afgreitt hvert á land sem er, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Í þessum tilgangi rekur fyrirtækið öflugar birgðastöðvar bæði á Akranesi, í Reykjavík, á Akureyri og á Reyðarfirði," segir Gunnar.
Eigendur tengjast rekstrinum
Núverandi eigendur Sementsverksmiðjunnar hf., þ.e. eigendur Íslensks sements, tengjast allir rekstri verksmiðjunnar með beinum eða óbeinum hætti. Þeir eru norski sementsframleiðandinn Norcem AS, Björgun hf. og BM Vallá auk þess sem Brú Venture Capital á fjórðungshlut í verksmiðjunni.
Norcem er í eigu þýsku sementsverksmiðjanna Heidelberg Cement Group, sem eru með stærstu sementsframleiðendum í heimi. Gunnar segir að í gegnum eignaraðildina eigi Sementsverksmiðjan aðgang að tækniþekkingu og reynslu sem komi sér vel þegar upp koma sérhæfð vandamál. Þá segir hann að Björgun sé aðal hráefnisbirgir Sementsverksmiðjunnar, en skeljasandi sem notaður sé til sementsgerðarinnar sé dælt með sanddæluskipum fyrirtækisins í skeljasandsþró verksmiðjunnar á Akranesi. BM Vallá segir Gunnar að sé stærsti steypuframleiðandi landsins og langstærsti viðskiptavinur Sementsverksmiðjunnar.
"Eigendur verksmiðjunnar tóku þá stefnu strax í upphafi eignaraðildarinnar að rekstur fyrirtækisins yrði mjög sjálfstæður enda ljóst að aðrir viðskiptavinir verksmiðjunnar yrðu að geta treyst því að fullur trúnaður ríkti milli stjórnenda hennar og viðskiptavina."
Gunnar er véltæknifræðingur að mennt auk þess sem hann útskrifaðist frá Endurmenntun Háskóla Íslands í rekstrar- og viðskiptanámi vorið 2001. Hann hóf störf hjá Sementsverksmiðjunni árið 1981, fyrst sem verkefnisstjóri, en varð síðar bæði viðhaldsstjóri, framleiðslustjóri og gæðastjóri verksmiðjunnar. Hann tók við framkvæmdastjórastarfinu 1. desember síðastliðinn.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar