Sementsmölun stöðvuð

28.03.2006

Þann 25. mars síðastliðinn var sementsframleiðsla stöðvuð vegna viðhalds og endurnýjunar á tækjabúnaði. Um er að ræða 2 vikna skipulagða framleiðslustöðvun búnaðar er tengist sementskvörn II.

Í framleiðslustöðvuninni fer fram hefðbundið fyrirbyggjandi viðhald framleiðslubúnaðar samhliða ýmsum endurnýjunum og betrumbótum. Meðal viðhaldsverkefna má nefna að sementsskilja verður tekin niður og hún lagfærð þannig að virkni hennar eykst. Þá stendur til að yfirfara innviði sementskvarnar og endurnýja helstu slitfleti í framleiðslulínu þannig að búnaður verði í góðu rekstrarástandi fyrir þá miklu sementsframleiðslu sem framundan er.

Helsta endurnýjunin að þessu sinni er að settur verður upp nýr tölvustýrður mötunarbúnaður fyrir sementsgjall. Með nýjum búnaði eykst mötunarnákvæmni hráefna til sementsgerðar samhliða því að fljótlegra verður að skipta á milli sementstegunda þegar á þarf að halda.

Nokkur titringur hefur borist frá sementskvarnardrifum niður í klöpp og út í umhverfið, en titringurinn hefur meðal annars valdið nágrönnum verksmiðjunnar ónæði. Tæknideild verksmiðjunnar hefur unnið að því að greina vandamálið og reynt ýmsar aðferðir sem ekki hafa skilað nægjanlega varanlegum árangri. Vegna þessa hefur nú verið haft samband við þýska fyrirtækið FUCHS – Lubritech GmbH, en fyrirtækið er sérhæft í viðhaldi og rekstri þungra drifa. Sérfræðingur frá fyrirtækinu er nú í heimsókn hjá Sementsverksmiðjunni og hefur lagt til að farið verði í sérhæfða viðgerð á drifunum svo og að nýjar smurningsaðferðir verði teknar upp. Miklar vonir eru bundnar við að þessar aðgerðir skili árangri og ef svo er, verður sami sérfræðingur fenginn til að betrumbæta drif sementskvarnar I.

Vinna sem framkvæmd er í rekstrarstöðvuninni er unnin undir stjórn starfsmanna Sementsverksmiðjunnar, en nokkur fjöldi aðkeyptra vélvirkja frá Þorgeir og Ellert hf hefur verið fenginn til aðstoðar.

Akranesi 27.03.06
GHS
Texti með mynd:
Sérfræðingur frá FUCHS að störfum við kvarnardrifið

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar