Sérframleiðsla fyrir Kárahnjúkavirkjun

29.06.2005

Sementsverksmiðjan hf hefur tekið að sér að framleiða sérsement fyrir ákveðinn verkþátt Kárahnjúkavirkjunar. Um er að ræða sement sem notað er til að þétta berg í grunni Káranjúkastíflu. Eins og kunnugt er mun Kárahnjúkastífla við Hálslón verða ein stærsta stífla í Evrópu, um 198 metra há og 730 metra löng. Stíflan er byggð þvert yfir syðsta hluta Hafrahvammagljúfra vestan í Fremri-Kárahnjúk. Stíflan er gerð úr grjóti og þjöppuðu malarefni, en á vatnshliðinni verður steypt kápa sem meðal annars tryggir þéttleika stíflunnar. Þar sem stíflan leggst upp að berginu eru gerðar kröfur til þéttleika bergsins. Það er einkum gert til þess að koma í veg fyrir vatnsleka í stíflugrunni. Til að tryggja þetta eru boraðar allt að 100 m langar holur í bergið og sérstakri sementseðju dælt í holurnar. Miklar kröfur eru gerðar til þess sements sem notað er til eðjugerðarinnar. Þannig þarf sementið að uppfylla strangar gæðakröfur varðandi fínleika. Slíkt sement er almennt ekki framleitt sem lagervara og því þarf að sérframleiða það. Gert er ráð fyrir að notuð verði um 4000 tonn af sérframleiddu sementi. Sementið er framleitt undir ströngu gæðaeftirliti innan verksmiðjunnar. Efnið er sent með tankbílum á Kárahnjúkasvæðið þar sem fulltrúi kaupanda sem er Impregilo tekur á móti hverjum bíl og yfirfer gæðavottorð sem fylgir hverjum farmi. Akranesi 29.06.05 GHS

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar