Umhverfisvænni verksmiðjurekstur

21.03.2005

Stjórnendur Sementsverksmiðjunnar hf leita stöðugt leiða til að gera rekstur verksmiðjunnar umhverfisvænni. Það er í takt við umhverfisstefnu verksmiðjunnar sem vistuð er sem eitt mikilvægasta skjalið í Umhverfisstjórnunarkerfi verksmiðjunnar sem uppbyggt er í anda ISO staðlanna.


Framleiðsla á sementsgjalli, sem er hráefni til sementsgerðar, fer fram í 100 m löngum gjallbrennsluofni. Við brennslu hráefna í ofninum verður til töluvert af ryki sem leitt er frá ofninum með afgasi. Öflug rafsía hreinsar rykið úr afgasinu, þannig að útblásturinn sem kemur frá skorsteini verksmiðjunnar er nánast eingöngu loft með vatnsgufu í.


Á fyrstu rekstrarárum verksmiðjunnar var hluti af þessu ryki endurnýttur með því að flytja rykið með sérstökum búnaði aftur inn í ofninn. Þessi endurnýting hafði í för með sér ákveðið óhagræði. Við endurnýtingu efnisins með þessum hætti hækkaði alkalíinnihald gjallsins. Þá var flutningsbúnaður flókinn og erfiður í viðhaldi.


Eftir að ákveðið var að nýta ekki þetta ryk til framleiðslunnar var það blandað miklu magni af vatni og dælt til sjávar. Var þetta heimilt þar sem rykið er eingöngu samsett af náttúrulegum efnum sem ekki eru hættuleg umhverfinu. Á 9. áratugnum fór að bera á því að óánægja væri meðal fólks á Akranesi með þessa lausn mála þar sem rykdælingin litaði sjóinn brúnan og það samræmdist ekki framtíðaráformum um að Langisandur yrði framtíðarútivistarsvæði. Hér var því um að ræða sjónmengun sem ekki þótti ásættanleg. Dælingu ryksins til sjávar var því hætt.


Ný lausn til að meðhöndla rykið fólst í því að útbúa setþrær úti á skeljasandsþró verksmiðjunnar. Vatnsblandað rykið var nú leitt út í þessar þrær þar sem efnisagnir settust til botns en tært vatnið með uppleystum söltum rann til sjávar. Þrærnar eru síðan tæmdar reglulega og hefur efnið úr þeim verið notað til uppfyllingar og að hluta til hefur því verið komið fyrir í gamalli líparitnámu sem verið er að loka og ganga frá.


Nýlega hafa farið fram ítarlegar efnarannsóknir á rafsíurykinu. Hafa þessar rannsóknir leitt í ljós að mikill munur er á efnisinnihaldi ryksins háð því hvar prufurnar eru teknar úr efnisferlinu. Þannig hefur komið í ljós að setefnið í þrónum er að mörgu leyti með sambærilega efnisuppbyggingu og hráefnaleðjan sem dælt er inn í ofninn. Óheppileg sölt hafa skolast burt með vatninu þannig að eftir stendur efnismassi sem er heppilegur til gjallframleiðslu en ákaflega erfiður í flutningi. Takist að finna lausn á þessu flutningsvandamáli er líklegt að endurnýta megi allt efnið sem til fellur.


Tæknideild Sementsverksmiðjunnar og fyrirtækið Iðntækni ehf hafa nú hrint af stað samstarfsverkefni þar sem meginmarkmiðið er að finna lausn á því hvernig hægt er að flytja efnismassann undir stýrðum aðstæðum aftur inn í ofninn. Til að byrja með er stefnt að því að setja upp bráðabirgðabúnað sem notaður yrði við tilraunakeyrslu. Endanlegur búnaður yrði síðan hannaður og smíðaður ef allt gengur að óskum.


Ljóst er að hér er um mjög áhugavert verkefni að ræða. Verði það að veruleika að endurnýting efnisins hefjist verða tvær flugur slegnar í einu höggi. Verulegur fjárhagslegur ávinningur liggur fyrir, en auk þess yrði þessi endurnýting stórt skref fyrir Sementsverksmiðjuna í þá átt að gera starfsemi verksmiðjunnar enn umhverfisvænni.


Akranesi 22. mars 2005
Gunnar H. Sigurðsson

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar