Fyrst á Íslandi: samræmisvottun til CE-merkingar sements

08.05.2002

Sement frá Sementsverksmiðjunni hf. á Akranesi er fyrsta íslenska byggingarvaran, sem á íslenskum markaði fær evrópska samræmismerkið CE. Merki þetta gefur til kynna að hinar ýmsu vörur, sem CE-merkingar ná til, standist annað hvort kröfur tiltekins samhæfðs (harmonized) Evrópustaðals eða kröfur svonefnds evrópsks “tæknisamþykkis”, og fer eftir vöruflokkum hvort á við. Fyrir sement hefur nú þegar tekið gildi samhæfður staðall, ÍST EN 197-1:2000. 

Um samhæfðan staðal gildir aftur á móti, að óheimilt er að selja á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) vöru af þeim flokki sem staðallinn nær til, nema hún sé CE-merkt samkvæmt staðlinum. Varan þarf að hafa fengið samræmisvottun innan ákveðins tíma frá því að samhæfður staðall tekur gildi. Án slíkrar vottunar og CE-merkingar má því ekki selja sement á Íslandi fremur en annars staðar á svæðinu eftir að hinn tiltekni frestur rennur út.

Einungis svonefndur “Tilnefndur aðili” (Notified Body) hefur heimild til að staðfesta samræmi vöru við kröfur þess samhæfða staðals sem við á, en sú vottun sem í slíku felst er skilyrði fyrir því að fyrirtæki fái heimild til að CE-merkja vöru. Rannóknastofnun byggingariðnaðarins er fyrsti “Tilnefndi aðilinn” á Íslandi á byggingarsviði. CE-vottun fyrir Sementsverksmiðjuna hf. felur í sér sérstakt óháð gæðaeftirlit með sementinu hjá Rannóknastofnun byggingariðnaðarins. Kemur það eftirlit til viðbótar því nú hefðbundna óháða gæðaeftirliti, sem stofnunin hefur veitt verksmiðjunni um áratugaskeið, sbr. árlegar skýrslur “Sementseftirlits Rb”, sem eru öllum aðgengilegar.

Fyrstu CE-vottorðin eru dagsett 1. mars 2002 og voru þau afhent þann dag við hátíðlegt tækifæri í hátíðarstúku Construct North í Laugardalshöll í lok ráðstefnunnar “Markaðsaðgangur að Evrópska efnahagssvæðinu og reglur um CE-merkingar vöru”. Forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Hákon Ólafsson, afhenti vottorðin umhverfisráðherra, Sif Friðleifsdóttur. Hún afhenti þau síðan framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar hf., Gylfa Þórðarsyni, sem á móti afhenti henni táknræna gjöf frá Sementsverksmiðjunni: áletraða plötu á sneið úr tilraunaborkjarna steinsteypu úr sementi frá verksmiðjunni.

Allar þær þrjár sementstegundir, sem verksmiðjan hefur hér á markaði í dag hafa hlotið þessa CE-vottun skv. staðlinum ÍST EN 197-1:2000:


SEMENTSTEGUND SEMENTSFLOKKUR STYRKLEIKAFLOKKUR CE-VOTTORÐSNR.

Portlandsement CEM II / A-M 42,5R 1066-CPD-01
Kraftsement CEM I 52,5N 1066-CPD-02
Hraðsement CEM II / A-D 52,5R 1066-CPD-03

Aðrar semensgerðir verksmiðjunnar sem þróaðar hafa verið til sérstakra nota, t. d. í “massasteypur” við virkjanagerð o. fl., svo sem lágvarmamyndandi sement eins og Blöndusement og Háofnasement , sem ekki eru til birgðir af nú, munu hljóta CE-vottun við upphaf sölu á ný.

Auk CE-vottunar hefur Sementsverksmiðjan hf. frá 1998 framleitt og selt sement eftir vottuðu gæðakerfi skv. alþjóðlega staðlinum ÍST EN ISO 9002.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar