Hálfs mánaðar framleiðslustöðvun hjá Sementsverksmiðjunni

23.04.2008

Laugardaginn 12. apríl var framleiðsla Sementsverksmiðjunnar stöðvuð vegna viðhaldsvinnu og nýframkvæmda. Auk almenns viðhalds var ráðist í endurnýjun tölvubúnaðar í framleiðsludeild. Þá var áhersla lögð á verkefni er leiða til umhverfisvænni rekstrar. Almennt viðhald í ofnstoppi felur meðal annars í sér endurnýjun á hluta fóðringar í gjallbrennsluofni, en ofninn, sem er 100 metra langur, er fóðraður að innan með eldföstum steini. Hitinn í eldhólfi ofnsins er um 1450 Celsíusgráður og þjónar fóðringin þeim tilgangi að vernda stálrörið gegn þessum mikla hita. Þá eru í hefðbundnu ofnstoppi endurnýjaðir ýmsir slitfletir úr stáli og rafbúnaður er yfirfarinn til að tryggja áframhaldandi rekstur næstu 12 mánuðina. Mikil endurnýjun var framkvæmd á tölvukerfi sem notað er við daglega stjórnun framleiðslubúnaðar. Tölvur og tölvuskjáir voru endurnýjaðir og lagðir voru ljósleiðarar milli einstakra framleiðsludeilda til að tryggja örugga og hraða gagnaflutninga. Með nýju upplýsingakerfi fyrir framleiðsludeild er lögð áhersla á aukið upplýsingastreymi fyrir stjórnstöðvarmenn sem gefur þeim betri yfirsýn yfir gang framleiðslunnar á hverjum tíma. Settur var upp stór flatskjár sem eingöngu er hugsaður til birtingar svokallaðra trendkúrfa, en þannig fá stjórnstöðvarmenn betri yfirsýn yfir framleiðsluferilinn. Eigendur og stjórnendur Sementsverksmiðjunnar eru vel meðvitaðir um mikilvægi þess að huga að umhverfismálum verksmiðjunnar og stöðugum betrumbótum í þeim efnum. Í ofnstoppinu sem nú er nýlokið var unnið að mikilvægum verkefnum hvað þetta varðar. Lokið var við smíði búnaðar til endurnýtingar filterryks og búnaðurinn tengdur nýju tölvukerfi í framleiðsludeild. Hér er um mikilvægan áfanga að ræða í umhverfismálum verksmiðjunnar þar sem síuryk frá gjallbrennsluofni verður endurnýtt að stórum hluta og minnkar þar með frálag frá verksmiðjunni sem því nemur. Þá var í ofnstoppinu sett upp nýtt smurkerfi fyrir hráefnakvörn, en tilganur þess er að tryggja sem best gang drifbúnaðar kvarnarinnar. Með smurkerfi sem stöðugt dælir nýrri smurolíu á drifið minnkar álag á drifið og möguleg titringshætta minnkar verulega. Þá kom sérfræðingur í þungum drifum frá fyrirtækinu Fuchs Lubritech í árlega viðhaldsheimsókn í stoppinu til að tryggja rétta uppsetningu á nýjum smurbúnaði og auk þess að yfirfara með fyrirbyggjandi hætti drifbúnað verksmiðjunnar.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar