Sementsframleiðslu hætt á Akranesi

23.11.2011

Vegna gríðarlegs samdráttar í sölu sements síðustu ár og mikillar óvissu um stöðu byggingariðnaðarins næstu misseri hefur Sementsverksmiðjan á Akranesi ákveðið að hætta sementsframleiðslu ef aðstæður breytst ekki verulega á næstu tveimur árum. Þess í stað mun verksmiðjan hefja innflutning frá norska framleiðandanum Norcem AS sem er einn eigenda Sementsverksmiðjunnar. Til stendur að flytja sement til hafna á Akranesi og Akureyri.
 
Stjórnendur Sementsverksmiðjunnar hafa, allt frá efnahagshruninu haustið 2008, gripið til margvíslegra aðgerða og skipulagsbreytinga með það að markmiði að viðhalda sementsframleiðslu í landinu. Þær aðgerðir hafa ekki dugað til og engar vísbendingar eru um verulegan viðsnúning á næstunni.
 
Ef aðstæður breytast og eftirspurn eftir sementi eykst verulega á næstu misserum munu stjórnendur Sementsverksmiðjunnar endurskoða þessa ákvörðun. Fyrirsjáanlegt er að sementssalan verði um 30 þúsund tonn í ár og verður árið það söluminnsta frá upphafi starfseminnar fyrir 53 árum.Síðustu áratugi hefur verksmiðjan að jafnaði framleitt um 100 þúsund tonn af sementi árlega.
 
Fyrirhugaðar breytingar leiða óhjákvæmilega til fækkunar starfsfólks þar sem framleiðsludeild verksmiðjunnar verður lögð niður ásamt stoðdeildum. Nemur fækkunin nú níu manns.
 
Á þessu ári framleiddi verksmiðjan sement í rúma þrjá mánuði og er allt lagerrými hennar á Akranesi nú fullt. Það hráefni sem verksmiðjan á nú þegar verður notað til sementsframleiðslu snemma á næsta ári og að óbreyttu lýkur þá sementsframleiðslu á Akranesi.
 
 

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar