Sjaldséður gestur kannar horfurnar!

30.03.2011

Brandugla, fulltrúi nátturu Íslands, heimsótti Sementsverksmiðjuna í lok síðustu viku og tók stöðu mála í ofnhúsi verksmiðjunnar. Svo virtist sem hún hafi frétt af því að eftir langt ofnstopp í verksmiðjunni stæði til að hefja framleiðslu á ný í lok fyrstu viku aprílmánaðar og vissara væri að kanna hvort ekki væri allt í lagi með mannskap og búnað.
Nú er unnið að því af fullum krafti að koma framleiðslu Sementsverksmiðjunnar af stað á ný eftir margra mánaða framleiðslustöðvun. Gríðarlegur samdráttur í sementssölu í vetur hefur gert það að verkum að ekki hefur reynst þörf á að framleiða sement nema í litlum mæli. Markaðnum hefur verið sinnt með því að selja sement út af lager verksmiðjunnar en nú er svo komið að lagerstaða er lág og nauðsynlegt er að byggja hana upp að nýju fyrir sumarið.
Kristján Guðmundsson rafiðnfræðingur verksmiðjunnar átti leið um ofnhúsið í lok síðustu viku við undirbúning gangsetningar og rakst þá á þennan sjaldséða gest. Greinilegt er að Kristján hefur ögrað uglunni þegar hann tók myndina því eyrun eru „uppi“ en það gerist aðeins þegar branduglunni er ögrað.
Kolaskip á vegum Sementsverksmiðjunnar er væntanlegt til Londonderry í Írlandi þann 8. apríl en það mun flytja um 4200 tonn af kolum til Grundartanga þar sem kolalager verksmiðjunnar er staðsettur. Kolin eru því væntanleg til landsins 12 apríl. Gangsetning gjallbrennsluofnsins hefst einhverjum dögum fyrr þar sem verksmiðjan á kol til uppkveikju á lager.
Stefnt er að því í þessari framleiðslulotu að framleiða um 22.000 tonn af gjalli, en það samsvarar rúmlega tveggja mánaða keyrslu á gjallbrennsluofni. Úr þessu magni af gjalli er hægt að framleiða um 25.000 tonn af sementi. Miðað við þann samdrátt sem enn ríkir á byggingamarkaðnum er gert ráð fyrir því að þetta magn nægi til að svara eftirspurn eftir sementi frá Sementsverksmiðjunni fram á haustið.
Skagamenn og aðrir góðir nágrannar verksmiðjiunnar, eins og uglan, eiga því á næstu vikum enn á ný að geta fylgst með veðurátt og vindstyrk á Akranesi með því að líta til sementsstrompsins. 
 
                                                                                    Akranesi 30.03.2011                                                                                                                           GHS

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar