Viðtal Haraldar Bjarnasonar blaðamanns við framkvæmdastjóra – Iðnaðarblaðið 2 tbl

03.11.2009

Sementsverksmiðjan á Akranesi
 
Helmings samdráttur í framleiðslu frá árinu 2007
 
Rætt við Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóra
 
Sementsverksmiðjan á Akranesi á undir högg að sækja á krepputímum. Hjá þessum hráefnisframleiðanda fyrir steypuframleiðendur hefur orðið mikill samdráttur á þessu ári. Gunnar H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar segir reiknað með að sementssalan frá verksmiðjunni á þessu ári verði um 75.000 tonn en hún var 118.000 tonn í fyrra og 152.000 tonn árið 2007.
Sementsframleiðsla hefur verið á Akranesi frá árinu 1958. Hún byggist á framleiðslu sementsgjalls sem síðan er malað niður ásamt ýmsum viðbótarefnum. Með mismunandi viðbótarefnum og mismikilli mölun eru framleiddar sementstegundir sem hafa margvíslega eiginleika. Gunnar segir að í Sementsverksmiðjunni séu núna framleiddar þrjár sementstegundir. „Við framleiðum hérna Portlandsement, Kraftsement og Hraðsement. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er um 110.000 tonn af sementsgjalli og úr því framleiðum við um 130.000 tonn af sementi. Með því að flytja inn viðbótargjall getur Sementsverksmiðjan framleitt um 180.000 – 200.000 tonn af sementi á ári,” segir Gunnar.
 
Starfsmenn í hálft starf frá mánaðamótum
Starfsmenn Sementsverksmiðjunnar nú eru um 45 en voru upp úr 1980 um 190 talsins. Á þeim tíma var efnahagsástand gott í samfélaginu og þensla á vinnumarkaði.Gunnar segir mikla uppbyggingu hafa verið innan verksmiðjunnar á þessum tíma og stjórnun fyrirtækisins byggst á því að verksmiðjan væri sjálfri sér nóg á öllum sviðum. „Frá þessum tíma hefur starfsmönnum fækkað. Ástæður þess má fyrst og fremst rekja til tveggja atriða. Annars vegar vegna breyttra stjórnunarhátta þar sem megináherslan er lögð á vandaða sementsframleiðslu og meðhöndlun sements innan fyrirtækisins en önnur verk eru framkvæmd af verktökum og þjónustuaðilum. Hitt atriðið er aukin sjálfvirkni á nánast öllum sviðum starfseminnar.”
Það vakti athygli að starfsmönnum verksmiðjunnar var boðið hlutastarf frá og með 1. nóvember en engum var sagt upp. Gunnar segir þetta vera meðal þeirra viðbragða sem gripið er til núna til að mæta þeirri djúpu efnahagslægð sem nú gangi yfir. „Við ætlum að stöðva framleiðsluna tímabundið og nánast leggjast í dvala. Allir starfsmenn fyrirtækisins hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til þess að fara í 50% starfshlutfall í 3 mánuði. Starfsmenn verksmiðjunnar sýna þannig í verki að þeim er umhugað um fyrirtækið og starfsemi þess. Verksmiðjan nýtur þess að eiga framúrskarandi starfsfólk sem kann vel til verka og er fyrirtækinu velviljað. Á þessum tíma verður starfsemi innan fyrirtækisins í algjöru lágmarki en þess gætt að viðskiptavinir fái afgreitt sement eins og verið hefur.” Gunnar segir mismunandi eftir deildum hvernig vinnufyrirkomulagið verði þegar allir séu í hálfu starfi. „Vaktavinumenn sjá um að vakta fyrirtækið allan sólahringinn og ganga því vaktir. Dagvinnumenn vinna ýmist aðra hverja viku, á víxl 2 og 3 daga í viku eða alla daga hálfan daginn.”
 
Sementsverksmiðjan á ekki feita sjóði
Mikil þörf var fyrir sement síðustu árin vegna þenslu í byggingaframkvæmdum. Því má ætla að fyrirtækið sé vel í stakk búið fjárhagslega til að mæta tímabundnum samdrætti. Gunnar segir málið ekki svo einfalt. „Atvinnulífið á Íslandi er ekki aðeins að takast á við tímabundin samdrátt heldur stendur það frammi fyrir hamförum þar sem íslenskt efnahagslíf hrundi. Þessi mikli samdráttur nú er afleiðing hrunsins, þess að bankarnir hrundu og þar með öll lánafyrirgreiðsla til framkvæmda og til fyrirtækja. Gengi krónunnar féll með þeim afleiðingum að erlend lán fyrirtækja snarhækkuðu og eigið fé fyrirtækjanna gufaði upp. Rekstur fyrirtækja tekur ekki mið af slíkum hamförum og var því eðlilega ekki undir það búin. Hvað Sementsverksmiðjuna varðar þá átti hún ekki feita sjóði til að ganga í eftir þenslutímabilið. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Í fyrsta lagi voru samningar vegna stórframkvæmda fyrir austan ekki eins hagstæðir og vonir stóðu til. Ástæða þess er sú að samningar sem gerðir voru í erlendri mynt urðu verðminni við styrkingu krónunnar í kjölfar samningsgerðarinnar. Þá varð allur tilkostnaður fyrir austan mun meiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Fyrir því eru margar ástæður sem of langt mál er að tíunda hér. Hin ástæðan er sú að allan þenslutímann var sementsverð á Íslandi mjög lágt vegna harðrar samkeppni á markaðnum.”
Gunnar segir að á undanförnum árum hafi þróun sements frá Sementsverksmiðjunni verið í takt við óskir markaðarins. Stöðugt hafi verið unnið að því að auka hörðnunarhraða sementsins ásamt því að tryggja aðra eiginleika sem uppfylla þarf gagnvart markaðnum og gildandi stöðlum. „Þannig settum við á markað nýja sementstegund fyrir nokkrum árum, svokallað Kraftsement, en það var gert til þess að mæta óskum markaðarins um sement sem hefði tiltölulega hraðan byrjunarstyrk. Á undanförnum árum hefur stöðugt verið unnið að gæðamálum innan fyrirtækisins og hefur öll framleiðsla fyrirtækisins nú um árabil verið vottuð samkvæmt ISO 9004:2000 auk þess að vera CE merkt.
Með inngöngu Íslands í EFTA árið 1970 varð innflutningur á sementi gefin frjáls í áföngum. Sementsverksmiðjan hafði fram að þeim tíma eingöngu keppt við staðkvæmar byggingarvörur eins og timbur og stál. Þegar leið á sjöunda áratuginn fóru stjórnendur verksmiðjunnar kerfisbundið að búa verksmiðjuna undir mögulega samkeppni vegna innflutts sements. Meðal þeirra verkefna sem ráðist var í var upptaka kolakyndingar við ofn í stað olíu og byggð var miðlæg stjórnstöð þaðan sem verksmiðjunni er enn stjórnað. Gunnar segir að eftir að samkeppni hófst hafi verksmiðjan lengst af haft um 55 – 75% markaðshlutdeild.
 
Lækkuðu verð á Íslandi en hækkuðu í Danmörku
Oftar en ekki hafa forsvarsmenn verksmiðjunnar borið keppinautunum á brýn að hafa ekki staðið heiðarlega að samkeppninni. Gunnar segir það rétt. „Innflutningsverð samkeppnisaðila okkar lækkaði um 10% í dönskum krónum talið frá því að innflutningur hófst árið 2000 og fram til ársins 2008. Á sama tíma hækkaði verð á danska markaðnum um 33%. Sú verðþróun var nokkuð í takt við almenna þróun sementsverðs á sama tíma enda hefur framleiðslukostnaður hækkað mikið með ört hækkandi orkuverði. Ég held það þurfi ekki frekari vitna við. Opinberar upplýsingar frá Hagstofu Íslands segja til um útflutningsverð og flutningskostnað danska sementsins til Íslands. Þessi opinberu gögn eru byggð á upplýsingum frá innflytjanda og eru væntanlega rétt.” Um það hvort verksmiðjan eigi ekki að geta haft mikið forskot á keppinauta með hráefnið innlent og margfalt minni flutningskostnað en útlendingar segir hann að sementsverksmiðjur séu almennt staðsettar nálægt hráefnanámum og því ætti Sementsverksmiðjan að vera jafnsett og aðrar verksmiðjur hvað það varðar. „Sementsverksmiðjan hefur hins vegar fjarlægðarvernd þar sem dýrt er að flytja sement frá meginlandinu til Íslands. Þá ætti samkeppnisstaða Sementsverksmiðjunnar að vera alveg sérstaklega hagstæð nú þar sem gengi íslensku krónunnar er mjög óhagstætt til innflutnings. Hins vegar ber að hafa í huga að verksmiðjan er mjög lítil á alþjóðlegan mælikvarða og breytilegur framleiðslukostnaður hennar er nokkuð hærri en gengur og gerist hjá stærri verksmiðjum. Það vegur upp á móti fjarlægðarvernd verksmiðjunnar. Þegar verksmiðjan á í samkeppni við mun stærri innflytjendur sem virðast tilbúnir til að undirbjóða markaðinn til lengri tíma litið þá verður þetta samkeppnisforskot sem fyrir hendi ætti að vera að engu.”
Sementsverksiðjan var í eigu ríkisins allt frá stofnun hennar árið 1958 til ársins 2003. Þá eignaðist fyrirtækið Íslenskt sement ehf Sementsverksmiðjuna hf. Eigendur að Íslensku sementi eru Björgun ehf, BM Vallá ehf og norski sementsframleiðandinn Norcem AS. 
 
Mega brenna ýmsu öðru en kolum og olíu
Með nýju starfsleyfi sem fyrirtækið fékk í lok seinasta árs fékk verksmiðjan heimild til þess að brenna orkuríkum úrgangi í stað kola. Það er brennsla á orkuríkum flokkuðum úrgangi eins og timbri, pappa og plasti.  „Úr þessum úrgangi munum við í raun framleiða eldsneyti með því að flokka og tæta það niður þannig að það brenni vel í eldhólfi ofnsins þar sem hátt hitastig tryggir algjöran bruna við kjöraðstæður. Þessi brennsla er sérstaklega áhugaverð, bæði fyrir Sementsverksmiðjuna og fyrir samfélagið. Komið hefur í ljós að gjallbrennsluofnar í sementsverksmiðjum henta einstaklega vel til brennslu á orkuríkum úrgangi. Víðast hvar í Evrópu og í hinum vestræna heimi eru sementsverksmiðjur að brenna slíku eldsneyti í stað kola og annars hefðbundins eldsneytis. Í tilfelli Sementsverksmiðjunar sparar slík úrgangsbrennsla innflutning á kolum og rekstrarkostnaður minnkar. Samfélagið nýtur góðs af en það hefur skuldbundið sig til þess að minnka urðun úrgangs í áföngum á næstu árum. Auk þessa dregur brennsla á flokkuðum orkuríkum úrgangi úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem brennsla á hefðbundnu eldsneyti sparast á móti,” segir Gunnar.
En eru líkur á því að sementsframleiðslu verði hætt á Akranesi eftir rúmlega 50 ára framleiðslu sements þar? Gunnar segir að allur rekstur búi við ákveðin sóknarfæri og ákveðna ógnun. „Þær ógnanir sem Sementsverksmiðjan stendur frammi fyrir eru meðal annars sá samdráttur og sú óvissa sem efnahagshrunið hefur valdið og þar með mögulegar boðaðar skattahækkanir, svokölluð orku- og umhverfisgjöld. Mikil óvissa ríkir um það hversu langan tíma það muni taka að ná þjóðinni upp úr efnahagslægðinni. Þá eru þessir boðuðu skattar óljósir og ófrágengnir. Þær tölur sem nefndar hafa verið, þ.e. 1 króna á hverja notaða kwh og um 6.400 króna skatt á hvert notað kolatonn, myndi þýða um 160 milljón króna skattheimtu á verksmiðjuna. Verksmiðjan ætti ekki annan möguleika en að koma þessari skattahækkun út í verðlagið. Mjög tvísýnt verður að teljast að markaðurinn tæki við slíkri hækkun. Hætti sementsframleiðsla á Akranesi flyst framleiðslan og störfin til annarra landa þar sem eingöngu yrði um innflutning á sementi til landsins að ræða í framhaldinu. Starfsfólk Sementsverksmiðjunnar, verktakar og aðrir sem þjónusta fyrirtækið, samtals um 140 manns yrðu að finna sér annan starfsvettvang.”
 
Geta leyft sér meiri sérframleiðslu
Mikil endurnýjun hefur átt sé stað á búnaði verksmiðjunnar í þau ríflega fimmtíu ár sem hún hefur verið starfrækt. Gunnar segir að grunn framleiðslutækin séu þó að mestu þau sömu frá upphafi. „Á þeim tíma þegar framleiðslutæki verksmiðjunnar voru byggð var vélbúnaður traustbyggður og gerður til þess að endast árum saman. Gott viðhald hefur verið á þessum búnaði frá upphafi sem tryggir góðan endingartíma hans,” segir hann og er nokkuð bjartsýnn á framtíðina. „Sementsverksmiðjan býr við áhugaverð sóknarfæri. Áður höfum við talað um möguleika verksmiðjunnar til brennslu á flokkuðum orkuríkum úrgangi, en með þeirri starfsemi myndi fyrirtækið öðlast nýtt hlutverk í íslensku samfélagi. Annað sóknarfæri sem er mjög áhugavert er aukin notkun sements til gatnagerðar. Annars vegar er um að ræða notkun á sementi til þess að styrkja jarðveg undir vegi og hinsvegar að steypa vegi í stað þess að nota olíuefni til slitlagsgerðar. Notkun steinsteypu til gatnagerðar er bæði hagkvæm og umhverfisvæn. Hagkvæmnin byggist á löngum endingartíma og litlu viðhaldi steinvega samanborið við önnur slitlög. Umhverfislega séð er neikvætt að nota olíuefni úti í náttúrunni auk þess sem mikil óhollusta hlýst af við niðurlögn olíubundinna slitlaga og vegna svifryks sem af slíkum slitlögum hlýst.”
Gunnar segir fleiri sóknarfæri uppi á borðinu. Þannig hafi Sementsverksmiðjan tekið að sér að sérframleiða sementstegundir í einstök verk að óskum kaupenda. „Seinast reyndi á þetta við byggingu Kárahnjúkastíflu. Í ljós kom eftir að búið var að hreinsa laust efni úr gljúfurstæði stíflunnar að bergið undir henni var „svampkennt“ og hélt þar af leiðandi ekki vatni. Leitað var til Sementsverksmiðjunnar vegna þessa vandamáls. Verksmiðjan tók að sér að sérframleiða rúmlega 4000 tonn af sér fínmöluðu sementi sem notað var til framleiðslu á múrgraut sem dælt var niður í bergið undir þrýstingi til þéttingar. Mjög líklega á Sementsverksmiðjan sóknarfæri í sérframleiðslu á sementi í framtíðinni, en litlar verksmiðjur hafa oft meiri sveigjanleika en þær stærri þegar að sérframleiðslu kemur,” segir Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar.
hb

Ljósmynd: Björn Lúðvíksson

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar