Grein í Fréttabréfi Steinsteypufélags Íslands frá febr. 2009

10.03.2009

Íslenskt sement í 50 ár!
 
 
Sagt er að athafnamanninum og skáldinu Einari Benediktssyni hafi tekist að selja norðurljósin á sínum tíma, hvað svo sem satt er í því. En það er bæði satt og rétt að hann kom fram með fyrstu hugmyndir að Búrfellsvirkjun og hann var fyrstur manna að hreyfa við hugmyndum um framleiðslu sements á Íslandi. Báðar þessar hugmyndir Einars urðu að veruleika og sement frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi var einmitt notað að hluta til við byggingu Búrfellsvirkjunar á sínum tíma.
 
Það var árið 1921 sem Einar Ben hóf máls á því þjóðþrifamáli að framleiða sement á Íslandi. Á síðari hluta 19. aldar hófst innflutningur á sementi, í smáum stíl reyndar. Eftir því sem steinsteypan sannaði sig sem varanlegt byggingarefni varð sífellt meiri eftirspurn eftir sementi og árið 1930 nam innflutningurinn 30.000 tonnum.
 
Verkfræðingafélag Íslands hóf fljótlega eftir stofnun þess árið 1912 að kynna kosti sements auk þess sem félagið sá um eftirlit með sementinu sem flutt var hingað til lands. Í tímariti félagsins var hvatt til þess að hafin yrði sementsframleiðsla hér á landi. Helsti hvatamaðurinn var Jón Þorláksson byggingarfræðingur, borgarstjóri og ráðherra. Það var síðan árið 1935 að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Bergs Jónssonar og Bjarna Ásgeirssonar um að ríkið legði til 10.000 krónur til rannsókna á möguleikum þess að hefja hér sementsframleiðslu.
 
Nýr kafli í atvinnusögunni
 
Níu árum síðar lauk Haraldur Ásgeirsson mastersritgerð í efnaverkfræði við University of Illionis í Bandaríkjunum Í henni benti hann m.a. á möguleika þess að nota rafmagn við sementsframleiðslu á Íslandi. Hann var síðan fenginn til þess að leggja mat á stofn- og rekstrarkostnað íslenskrar sementsverksmiðju og þjóðfélagslegan hagnað af henni. Árið 1947 flutti atvinnumálaráðherra frumvarp um byggingu sementsverksmiðju. Eftir töluverðar vangaveltur var ákveðið að að reisa hana á Akranesi og nýta hráefni í grendinni, skeljasand úr Faxaflóa og líparít úr Hvalfirði.
 
Bygging verksmiðjunnar hófst í ársbyrjun 1956 og þann 14. júní 1958 lagði forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson hornstein að verksmiðjunni við hátíðlega athöfn þar sem Gylfi Þ. Gíslason iðnaðarráðherra vígði verksmiðjuna með því að kveikja eld í ofni hennar. Hófst þar með nýr kafli í atvinnusögu þjóðarinnar.
 
Fyrstu árin framleiddi Sementsverksmiðjan um 100.000 tonn af sementi á ári og fullnægði þar með allri sementsþörf landsmanna. Um miðjan áttunda áratuginn var eftirspurnin slík að keypt var ný sementskvörn og afköst verksmiðjunnar urðu 160.000 tonn á ári.
 
Bann var sett við innflutningi á sementi þegar verksmiðjan tók til starfa. Við inngöngu okkar í EFTA var banninu aflétt í áföngum á árunum 1971 til 1975. Þrátt fyrir það var ekkert sement flutt til landsins fyrr en aldarfjórðungi síðar.
 
Gæðamál
 
Frá upphafi lagði verksmiðjan mikla áherslu á gæði sementsins og framleiddi það fyrst í stað samkvæmt erlendum stöðlum. Upp úr 1970 hófst vinna við gerð íslensks sementsstaðals ÍST 9 sem tekinn var upp hjá verksmiðjunni. Framleitt var samkvæmt honum til ársins 1994, þegar tekinn var upp nýr samevrópskur staðall, EN 197-1. Fjórum árum síðar fékk gæðakerfi verksmiðjunnar vottun alþjóðastaðalsins ISO 9002. Íslenska sementið var fyrst íslenskra byggingavara til að fá evrópska samræmingarmerkið CE en það vottar að framleiðslan stenst kröfur evrópska sementsstaðalsins.     
 
Á árunum 1978 til 1980 var, fyrir tilstuðlan Steinsteypunefndar, farið að bæta líparíti og járnblendiryki (svo kölluðum possolönum) í sementið til að auka gæði þess og gera það umhverfisvænt. Víða erlendis, t.d. í Danmörku, er þessum efnum bætt í steypuna en hér er gengið skrefinu lengra og efnin sett í sementið.
 
Umhverfismál
 
Í upphafi var svartolía notuð við sementsframleiðsluna en á áttunda áratugnum hækkaði olíuverð töluvert og því var skipt yfir í kol. Möguleikar á því að framleiða sement með rafmagni í bræðslukerum, líkt og við framleiðslu járnblendis, voru athugaðir, en ekkert varð úr því vegna lækkandi verðs á kolum. Um og uppúr 1990 var farið að brenna úrgangsolíu með kolunum.
 
Á upphafsárum Sementsverksmiðjunnar voru litlar kröfur gerðar um umhverfismál og mengunarvarnir. Engu að síður tóku stjórnendur verksmiðjunnar þessi mál föstum tökum frá upphafi. Umhverfismál og mengunarvarnir verksmiðjunnar hafa ávallt verið í sífelldri endurskoðun. Árið 1971 var Iðntæknistofnun Íslands falið að gera úttekt á mengunarvörnum verksmiðjunnar og niðurstaðan var mjög jákvæð fyrir Sementsverksmiðjuna og umhverfi hennar.
 
Árið 1972 gaf heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið út tímamótareglugerð um varnir gegn mengun. Sementsverksmiðjan fékk sitt fyrsta starfsleyfi byggt á reglugerðinni árið 1973. Síðan þá hefur verksmiðjan endurnýjað starfsleyfi sitt reglulega, síðast árið 2008.
 
 
„Græn orka”
Sementsverksmiðjan hefur í fimmtíu ár kappkostað að starfa í sátt við íbúa Akraness og umhverfið. Notkun á eldsneyti úr flokkuðum úrgangi er liður í þeirri viðleitni að gera Sementsverksmiðjuna umhverfisvænni. Er það í takti við metnaðarfulla umhverfisstefnu fyrirtækisins.
 
Nýjasta starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar felur meðal annars í sér heimild til framleiðsluaukningar. Í starfsleyfinu eru gerðar meiri kröfur en áður um mengunarvarnir og er Sementsverksmiðjunni nú heimilt að nýta „græna orku”, umhverfisvænt eldsneyti, sem viðurkenndir aðilar framleiða úr niðurtættum flokkuðum efnum og flytja tilbúið til verksmiðjunnar. Þessir umhverfisvænu orkugjafar verða í lokuðu kerfi og draga enn frekar úr mengun.
 
 
Arðsemi í hálfa öld
 
Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Verksmiðjan var nær eingöngu reist fyrir lánsfé sem er löngu uppgreitt. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi og sparaði þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Að jafnaði hafa starfað um 120 til 130 manns hjá Sementsverksmiðjunni og álíka fjöldi manna hefur atvinnu af margvíslegri þjónustu við verksmiðjuna.
 
Í tilefni af fimmtíu ára afmæli Sementsverksmiðjunnar var saga hennar gefin út af Verkfræðingafélagi Íslands og er bókin sú fimmta í ritröð félagsins. Dr. Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, skráði sögu hennar. 
 
  
 
 
Sement frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi hefur verið notað við allar virkjanir landsins.
 
 
Íslenskt sement var útflutningsvara á fyrstu árum Sementsverksmiðjunnar.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar