Grænt eldsneyti er ekki rusl

11.09.2008

Að undanförnu hefur nokkuð borið á misskilningi hjá íbúum á Akranesi um nýtt eldsneyti sem verksmiðjan hyggst nota í framtíðinni.
 
Sementsverksmiðjan hefur óskað eftir því að nýta að hluta til umhverfisvænt eldsneyti sem viðurkenndir aðilar framleiða úr blöndu af niðurtættum flokkuðum efnum, svo sem timbri, plasti, pappír og vefnaðarvöru, svo dæmi séu tekin. Eldsneytið verður ekki unnið úr þessum efnum á staðnum heldur tekur verksmiðjan á móti eldsneyti sem unnið er úr þessum efnum. Þessi efni berast til verksmiðjunnar sem umhverfisvænt eldsneyti. Ekki verður tekið á móti neins konar almennum úrgangi eða sorpi til brennslu í verksmiðjunni.
 
Þetta nýja eldsneyti mun draga úr mengun frá verksmiðjunni. Bæði er það vegna þess að nýja eldsneytið verður í lokuðu kerfi, auk þess sem gerðar eru meiri kröfur en nú eru gerðar um mengunarvarnir í umsókn um nýtt starfsleyfi sem nú liggur fyrir. Þar er gerð krafa um að leyfilegt rykmagn í útblæstri verði sex sinnum minna í nýja starfsleyfinu en leyft var til ársins 1981.
 
Notkun á þessu nýja eldsneyti er afar umhverfisvæn. Notkun þess dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Annar ávinningur með notkun þess er að hún dregur úr urðun þessara efna sem er æði kostnaðarsöm fyrir samfélagið, auk þess sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til þess að draga verulega úr urðun úrgangs á næstu árum. Notkun þessa nýja eldsneytis dregur úr notkun kola, en kol eru takmörkuð auðlind.
 
Í gegnum tíðina hefur Sementsverksmiðjan skipt miklu máli fyrir samfélagið á Akranesi. Um þessar mundir starfa um 50 manns í Sementsverksmiðjunni og að minnsta kosti önnur 50 störf eru á svæðinu við margvíslega þjónustu fyrir verksmiðjuna. Með öðrum orðum skapar verksmiðjan á Akranesi um 100 heilsársstörf. Þessi störf skila umtalsverðum útsvarstekjum til samfélagsins, fasteignagjöldin sem við greiðum til bæjarins eru 16,5 milljónir króna og þá eru ótaldar aðrar óbeinar tekjur samfélagsins svo sem af hafnargjöldum og fleiru. Ávinningurinn af Sementsverksmiðjunni er því mældur í tugum milljóna króna og það munar vissulega um minna í samfélagi eins og okkar.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar