Umhverfisvænt eldsneyti í Sementsverksmiðjuna

27.08.2008

Nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðu um nýtt starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Þar hefur verið lögð áhersla á að verksmiðjan sé að fara að brenna úrgangi. Í því sambandi hefur Sementsverksmiðjunni verið líkt við mengandi sorpbrennslustöð. Þetta er fjarri því sem verksmiðjan stefnir að.
 
Áform Sementsverksmiðjunnar eru að nýta ,,græna orku”. Óskað er eftir því að nýta að hluta til umhverfisvænt eldsneyti sem viðurkenndir aðilar framleiða úr blöndu af niðurtættum flokkuðum efnum, svo sem timbri, plasti, pappír og vefnaðarvöru, svo dæmi séu tekin. Ekki verður tekið á móti neins konar úrgangi til brennslu í verksmiðjunni heldur tilbúnu umhverfisvænu eldsneyti.
 
Þessi starfsemi mun ekki auka mengun frá verksmiðjunni, heldur þvert á móti draga úr henni. Bæði er það vegna þess að nýja eldsneytið verður í lokuðu kerfi og gerðar eru meiri kröfur um mengunarvarnir í umsókn um nýtt starfsleyfi. Brennsla á eldsneyti úr flokkuðum úrgangi er umhverfisvæn lausn sem stuðlar að aukinni sjálfbærni, meðal annars vegna þess að hún kemur í veg fyrir að urða þurfi úrgang og eldsneytið kemur í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Sú lausn að brenna eldsneyti sem framleitt er úr flokkuðum úrgangi í gjallbrennsluofni Sementsverksmiðjunnar er hagstæð fyrir umhverfið, samfélagið á Akranesi og efnahagslega séð, auk þess sem stefnt er að því að draga úr eldsneytiskostnaði verksmiðjunnar, sem hefur hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum.
 
Sementsverksmiðjan hefur í fimmtíu ár kappkostað að starfa í sátt við íbúa Akraness og umhverfið. Notkun á eldsneyti úr flokkuðum úrgangi er liður í þeirri viðleitni að gera Sementsverksmiðjuna umhverfisvænni og er í takt við metnaðarfulla umhverfisstefnu fyrirtækisins.
GHS.

Til Baka

Hafa samband 

  • Sími sementsafgreiðsla430 5050
  • Sími skrifstofa430 5000
  • Framkvæmdastjóri430 5021

Opnunartími sementsafgreiðslunnar

Mán – Fimm 7.45 – 16.00
Föstud. 7.45 – 15.00

Nánari upplýsingar